*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 6. mars 2015 09:38

Jón Steinar vill breyta fyrirkomulagi við dómaraskipan

Jón Steinar Gunnlaugsson tekur undir tillögur nefndar ráðherra um breytt fyrirkomulag við skipan dómara við Hæstarétt.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að tillögur nefndar innanríkisráðherra um breytta skipan dómstóla um skipan dómara séu betri en núverandi fyrirkomulag. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir hann að nú ráði þeir sem völdin fara við dómstólanna því hverjir skipaðir eru, en að eðlilegra sé að framkvæmda- og löggjafarvaldið komi með beinni hætti að skipan dómara.

Í greininni segir Jón Steinar að nú ráði stjórnskipuð nefnd skipan dómara þó þannig að ráðherrann getur borið afstöðu sína undir Alþingi ef hann vill ekki lúta vilja nefndarinnar. Eins og áður segir er Jón Steinar þeirrar skoðunar að Hæstiréttur, einkum forseti réttarins, ráði lögum og lofum í nefndinni og þetta fyrirkomulag hafi leitt til þess að ekki verði aðrir skipaðir hæstaréttardómarar en þeir "sem eru þessum valdahópi innan dómskerfisins þóknanlegir."

Segir Jón að skipunarnefndin og Hæstiréttur sjálfur á undan henni hafi lengi misbeitt valdi sínu til að tryggja framgang vina og kunningja. "Við niðurröðun nefndarinnar á umsækjendum hafa kunningjarnir verið færðir upp á kostnað hæfari umsækjenda. Nú er svo komið að Hæstiréttur er samsettur úr þessu kunningjasamfélagi án mikilla undantekninga," segir hann.

Í frumvarpsdrögum nefndarinnar, sem skilaði tillögum sínum í vikunni, er lagt til að nefnd skuli meta hæfni umsækjenda en ekki raða hinum hæfu niður í forgangsröð. Ráðherra skuli velja einn en þó þannig að skipun hans skuli þurfa samþykki meiri hluta Alþingis. Telur Jón Steinar að það fyrirkomulag að æðsti handhafi framkvæmdarvalds og handhafi löggjafarvaldsins skuli báðir eiga aðild að skipun dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar sé betra en núverandi fyrirkomulag, enda sæki ráðherra og þingmenn umboð sitt til þjóðarinnar ólíkt skipunarnefndarinnar sem nú starfi.