Á sama tíma og verðbólga hefur aukist um 4,5 prósentur hafa vextir Seðlabankans hækkað um aðeins 0,5 prósentur og aðhaldsstig peningamálastjórnar bankans því minnkað verulega. Ef Seðlabankinn heldur áfram á sömu braut má búast við því að verðbólga haldi áfram að aukast og gengi krónunnar haldi áfram að lækka. Til þess að ná tökum á verðbólgunni þarf Seðlabankinn að hækka vexti verulega. Hæfileg vaxtahækkun til að byrja með væri 2-2,5 prósentur.

Þetta er mat Jóns Steinssonar, dósents í hagfræði við Columbia háskóla í New York, sem skrifar grein um málið í Fréttablaðinu í dag.

„Sú skoðun er nokkuð útbreidd á Íslandi að eitthvað sé sérstakt við Ísland sem geri það að verkum að hefðbundin hagfræðilögmál um að hærri vextir dragi úr eftirspurn eigi ekki við. Því er jafnvel haldið fram að hærri vextir ýti undir þenslu og verðbólgu. Þessu til stuðnings er vísað til áranna fyrir hrun þegar vextir voru hækkaðir en þensla jókst.

Þessi röksemdafærsla er eins og að halda því fram að læknar drepi þar sem svo margt fólk deyr þegar það leggst inn á spítala. Á árunum fyrir hrun hafði fullkomlega ábyrgðarlaust fjármálakerfi aðgang að nánast ótakmörkuðu erlendu lánsfé og opinberu eftirliti með starfsemi þeirra var verulega ábótavant. Vaxtahækkanir Seðlabankans á þeim tíma voru eins og mús að reyna að halda aftur af tígrisdýri,“ segir Jón. Að hans mati er staðan allt önnur í dag, og hagkerfið kirfilega innsiglað af gjaldeyrishöftum og mun strangari reglum og eftirliti.

Jón segir að ef enginn hafi trú á því að Seðlabankinn muni gera neitt í því þótt verðbólga hækki, þá geti verðbólgan sprottið af sjálfu sér. „ Fólk og fyrirtæki sem óttast verðbólgu í framtíðinni hækka verð og krefjast hærri launa í dag. Þannig geta væntingar um verðbólgu í framtíðinni orsakað verðbólgu í dag svo fremi sem Seðlabankinn gerir ekkert í málunum. Slíkt ferli virðist vera að grafa um sig á Íslandi í dag.

Seðlabankinn er reyndar blóraböggull í þessu öllu saman. Hinn raunverulegi vandi er að það er enginn stuðningur í samfélaginu fyrir því að Seðlabankinn haldi verðbólgu í skefjum. Alltaf þegar Seðlabankinn aðhefst eitthvað fær hann yfir sig holskeflu gagnrýni alls staðar að. Stjórnmálamenn í öllum flokkum skammast í honum. Og það gera líka forystumenn í verkalýðshreyfingunni og forystumenn atvinnurekenda.

Öll elítan í landinu er samstiga í því að skammast í Seðlabankanum ef hann vogar sér að reyna að halda aftur af verðbólgu. Það er því ekki nema von að verðbólga sé sjálfsprottin um þessar mundir á Íslandi,“ segir hann.