Hagfræðingur við Columbia-háskóla segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær ekki nægjanlega mikla. Hægt væri að laða peninga til landsins og styrkja þannig gengi krónunnar með því að hækka vexti.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um hálft prósentustig í gær. Versnandi verðbólguhorfur eru helsta ástæða þess að farið er í hækkunina. Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla í New York, segist í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins telja að bankinn hefði átt að hækka vexti meira. Verðbólgan hafi aukist hratt síðustu misseri en á sama tíma hafi vextirnir bara hækkað um eitt prósentustig. Aðhald bankans hafi því minnkað. Hann segir að þegar verðbólga aukist þurfi að auka aðhaldsstig peningamálastefnunnar.

„Ég tel að Seðlabankinn sé mjög eftir á í því að hækka vexti og þurfi að hækka þá mun meira en hann hefur gert,“ segir Jón.