Jón S. von Tetzchner, annar stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera og fjárfestir, er að opna frumkvöðlasetur á Eiðistorgi. Setrið verður með tengingar við sams konar setur í Noregi og Boston í Bandaríkjunum á vegum Jóns. Hann stofnaði norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software árið 1995 en það þróar samefndan Opera-vafra sem bæði er fyrir tölvur, nettengjanleg tæki og síma.

Fram kemur í tilkynningu að frumkvöðlasetrið á Eiðistorgi heitir The Innovation House og verður samskiptamiðillinn Spyr.is meðal fyrstu fyrirtækja sem þar verður staðsett.

Eins og VB.is greindi frá í síðustu viku er Jón einn af helstu hluthöfum félagsins Confirmed News ehf, sem á og rekur Spyr.is. Eignarhlutur Jóns verður 23% til að byrja með en 20% þegar hlutafjáraukningu félagsins verður lokið.