Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, segir að yfirlýsingar frá Almenningi ehf. og talsmönnum fjárfestahóps, sem Almenningur er í samstarfi við, feli í sér brot á trúnaðarsamningi við einkavæðingarnefnd.
Jón segist gera ráð fyrir að einkavæðingarnefnd sendi öllum sem undirrituðu trúnaðarsamning áminningu í dag um að virða samninginn.

"Þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið eru að mínu mati ekki í samræmi við trúnaðarsamninginn. Menn hafa gengið lengra en efni hans og ákvæði segja til um," segir Jón í viðtali við Viðskiptablaðið.

"Það var ætlast til þess að allir aðilar sýndu ákveðinn trúnað og gættu ákveðinnar þagmælsku á meðan ferlið væri í gangi. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar menn virða ekki slíkan samning, sem er í rauninni grundvöllurinn að öllu ferlinu."

Jón vill ekki tilgreina hvaða ummæli eða yfirlýsingar hafi falið í sér trúnaðarbrot. "Ég ætla ekki að tjá mig í smáatriðum um þá þætti. En við sjáum í þeim viðtölum sem birst hafa í fjölmiðlum að sumir þeirra sem skilað hafa inn tilboðum vilja alls ekki tjá sig og vísa til trúnaðarsamningsins. Ég hygg að þeir skilji trúnaðarsamninginn með réttum hætti og á sama hátt og nefndin gerir. Það var auðvitað tilgangurinn hjá okkur og okkar ráðgjafa, Morgan Stanley, sem hefur mikla reynslu af svona ferli, að allir sætu við sama borð í þessum efnum og menn gættu lágmarkstrúnaðar."

Jón segir að ef menn brjóti trúnaðarsamninginn gróflega geti það leitt til þess að viðkomandi fjárfestahópur verði felldur út úr söluferlinu.

"Slík brot þurfa náttúrlega að vera umtalsverð, en ég geri ráð fyrir að nefndin muni strax í dag senda öllum þeim sem hafa skrifað undir trúnaðarsamninginn bréf og áminna menn um að trúnaðarsambandið sé enn við lýði og mönnum beri að sjálfsögðu að virða þau ákvæði sem þeir hafa skrifað undir og samþykkt."

Jón segir að meta beri téðar yfirlýsingar og viðtöl með hliðsjón af því að ákveðið spennufall hafi orðið í gær eftir að tilboðsfresturinn rann út. "Ég hygg að sumt af því sem sagt hefur verið hafi verið sagt í hita leiksins. Menn verða auðvitað að líta til þess og mega ekki vera of strangir í því efni. En ítrekuð brot á trúnaðarsamningnum geta auðvitað haft alvarlegar afleiðingar."

Ítarlegt viðtal verður við Jón Sveinsson í Viðskiptablaðinu á föstudag.