Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Jón Ólafsson, sem löngum hefur verið kenndur við Skífuna, þurfi að greiða Landsbankanum rúmlega 2,2 milljónir punda auk vaxta og málskostnaðar. Samtals gera þetta rúmar 430 milljónir íslenskra króna auk samtals 3,2 milljóna króna í málskostnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jón í desember í fyrra til að greiða bankanum rúmar 2,2 milljónir punda vegna sjálfskuldarábyrgðar láns sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti félagi hans Jervistone Limited árið 2006. Eftir að sparisjóðurinn fór í þrot tók Landsbankinn hann yfir. Jervistone greiddi ekki upp lánið og var Jón því krafður um greiðslu. Hann hafnaði því hins vegar að greiða lánið og vísaði til þess að hann hafi verið ráðinn sem ráðgjafi hjá Jervistone og að sparisjóðurinn hafi gert kröfu um að hann tæki sjálfskuldarábyrgðina á sig. Auk þess taldi Jón Landsbankann ekki eiga að innheimta lánið enda það tekið hjá öðrum banka.

Jón taldi jafnframt að sparisjóðurinn hafi komið í veg fyrir að Jervistone gæti leyst út hlutabréf sem félagið átti til að greiða lánið upp. Hæstiréttur bendir hins vegar á að samkvæmt ákvæðum í lánasamningi hafi engin skylda verið lögð á Sparisjóðinn í Keflavík til að ráðstafa veðsettum bréfum til greiðslu lánsins.

Hann skaut málinu til Hæstaréttar í mars síðastliðnum, krafðist sýknu en til vara að kröfur yrðu lækkaðar. Landsbankinn krafðist hins vegar staðfestingar á dóminum.

Í dómi Hæstaréttar segir hins vegar:

„Breytir það [...] engu um ábyrgðarskuldbindingu áfrýjanda að ekki var gengið að þeim. Þá standa rök ekki til þess að stefndi hafi glatað rétti sínum á hendur áfrýjanda þótt hinn fyrrnefndi hafi ekki kallað eftir frekari veðum eða innheimt kröfuna hjá aðalskuldara eftir að hún féll í gjalddaga. Að lokum hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að það hafi verið forsenda ábyrgðarloforðs hans að handveðsett hlutabréf stæðu ávallt undir endurgreiðslu lánsins á gjalddaga,“ að því er segir í dómi Hæstaréttar.