Jón Þór Sigurvinsson, forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Arctica Finance, hefur aukið hlutdeild sína í Arctica og á nú yfir tíu prósent. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að Ascraeus ehf., félag Jóns Þórs, væri hæft að fara með allt að fimmtungs hlut í Arctica Finance. Ekki liggur fyrir hver hlutdeild Jóns Þórs er nákvæmlega.

Þrír hluthafar eiga nú meira en tíu prósent hlut í Arctica. Það eru þeir Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri, Bjarni Þórður Bjarnason, aðstoðarframkvæmdastjóri og téður Jón Þór.

Jón Þór er einn af sjö stofnendum Arctica Finance. Hann starfaði í Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans árin 2007-2008 en áður hjá fjárfestingafélaginu Straumborg. Arctica Finance var stofnað árið 2009.