*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Fólk 10. júlí 2019 13:38

Jón Þór lætur af störfum hjá Arctic

Jón Þór Gunnarsson hættir sem forstjóri Arctic Adventures um næstu mánaðarmót. Styrmir Þór Bragason tekur við starfinu.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Þór Gunnarsson mun láta af störfum sem forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures um mánaðamótin. Þetta staðfesti Jón Þór í samtali við Viðskiptablaðið. Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Arctic Adventurs, mun taka við forstjórastarfinu, en hann á tæplega 14% hlut í félaginu. 

Ráðgert er að Jón Þór, sem á rétt eins og Styrmir tæplega 14% hlut í fyrirtækinu, verði áfram hluthafi í félaginu. 

Jón Þór segir að hann hafi sjálfur óskað eftir því að láta af störfum.

„Fyrirtækinu gengur vel og þessi fjögur og hálft ár sem ég hef gegnt forstjórastöðunni hafa gengið mjög vel. Það hefur verið langur og strangur ferill að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Það er búið að byggja fyrirtækið upp í það að vera leiðandi fyrirtæki á þessum markaði. Við Styrmir höfðum rætt það okkar á milli að hann myndi á einhverjum tímapunkti taka við starfinu. Mér þótti þetta góður tímapunktur til þess að láta verða að því."   

Jón Þór segir að það gæti vel farið svo að hann setjist í stjórn Arctic Adventures.

„Styrmir hefur setið í stjórn félagsins fyrir okkar hönd og það er því ekki ósennilegt að við munum hafa sætaskipti." Hann bætir við að framhaldið eigi þó eftir að skýrast betur á næstunni.    

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Greint var frá því í janúar að félagið hyggðist kaupa Into The Glacier í Langjökli og kom fram í tilkynningu vegna kaupanna að samanlögð velta félaganna tveggja hefði numið um 7 milljörðum króna á síðasta ári.