Jón Þór Sigurvinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Arctica Finance. Hann tekur við starfinu af Stefáni Þór Bjarnasyni sem hefur frá stofnun félagsins sinnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins samhliða því að veita Fyrirtækjaráðgjöf forstöðu.

Jón Þór er einn af stofnendum Arctica Finance og hefur 14 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Jón Þór hefur leitt eða komið að mörgum stærri fyrirtækjaráðgjafarverkefnum seinni ára. Þá vann hann í Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans í tvö ár frá 2007-2008. Áður vann Jón Þór hjá fjárfestingafélaginu Straumborg, þar sem hann bar ábyrgð á fjárfestingum félagsins í orkugeiranum ásamt því að sjá um veltubók. Frá 2004-2005 vann Jón Þór hjá Kjarnorkurannsóknarstofnun Frakklands, CEA.

Jón Þór er með B.Sc. gráðu í vélaverkfræði og tölvunarfræði fá HÍ, M.Sc. gráðu í orkuverkfræði frá Universite Joseph Fourier auk þess að hafa lokið löggildingu í verðbréfamiðlun. Jón Þór er giftur Guðrúnu Þorgeirsdóttur og eiga þau þrjár dætur.