*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Fólk 25. júní 2021 22:15

Jón Þór tekur við Kaldalóni af Jónasi

Jónas Þór Þorvaldsson víkur fyrir Jóni Þóri Gunnarssyni forstöðumanni hjá Gamma sem forstjóri Kaldalóns.

Ritstjórn
Jónas Þór Þorvaldsson, fráfarandi forstjóri Kaldalóns, hefur gegnt stöðunni frá sumrinu 2019.
Aðsend mynd

Jón Þór Gunnarsson forstöðumaður hjá Gamma mun taka við forstjórastól fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns af Jónasi Þór Þorvaldssyni nú um mánaðarmótin. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnnar.

Jón Þór hefur samkvæmt tilkynningunni víðtæka reynslu af fasteignum og fasteignaþróun, en hann hefur starfað sem forstöðumaður framkvæmda og fasteignaþróunar hjá Gamma síðastliðin tvö ár, við fasteignaþróun hjá Kviku í á annað ár, og þar á undan sem byggingaverkfræðingur hjá Mannviti í 12 ár.

Jón er með meistaragráðu í byggingarverkfræði frá Denmark Tekniske Universitet og bachelorsgráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Jónas hefur verið forstjóri Kaldalóns frá því í júní 2019.

Kaldalón tilkynnti í gær um kaup sjóða í eigu Stefnis og VÍS á samtals 22% hlut í félaginu fyrir 1,3 milljarða króna.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns:

„Ég hlakka til að takast á við verkefnin og umbreytingarstarfið framundan. Ég þekki félagið og verkefni þess vel. Stefna félagsins um aukna áherslu á tekjuberandi eignir og fyrirhuguð skráning á aðalmarkað árið 2022 gerir starfið einkar áhugavert.“

Jónas Þór Þorvaldsson fráfarandi forstjóri:

“Það hefur verið ánægjulegt að fá að koma að uppbyggingu félagsins síðastliðin tvö ár þar sem mikið hefur unnist við að efla það og þroska við krefjandi aðstæður. Framundan eru spennandi tímar þar sem stefnt er að aukinni fjárfestingu Kaldalóns í tekjuberandi eignum og skráningu þess á aðallista Kauphallarinnar. Ég vil á þessum tímamótum óska hluthöfum félagsins og stjórn þess velfarnaðar á þeirri vegferð og þakka sérstaklega fyrir samvinnuna.”