„Allt útlit er fyrir að þetta fé muni glatast,“ segir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins Byrs. Hann hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við frétt DV frá í dag þar sem því er haldið fram að hann hafi flutt mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri utan á þessu ári og í fyrra. Gjaldeyrisflutningurinn var sagður í formi láns í evrum til félagsins CCP System í Bretlandi. DV segir fjármagnsflutninga með þessum hætti fara gegn gjaldeyrishöftunum.

Jón Þorsteinn hóf nýverið afplánun fjögurra ára fangelsisdóms á Kvíabryggju sem hann hlaut vegna aðildar sinnar að Exeter-málinu svokallaða.

Blaðið segir að í hvert skipti hafi lánveiting Jóns Þorsteins numið 50 til 100 þúsund evrum. Þær séu til skamms tíma, nokkurra mánaða, skuldbindi lántakandi sig til að greiða lánveitandanum féð aftur með vöxtum. Eini tilgangurinn með viðskiptunum, að sögn DV, er að koma gjaldeyri úr landi í trássi við höftin þótt þau séu skilgreind sem lán.

Í yfirlýsingu sem Jón Þorsteinn hefur sent frá sér vegna málsins segir að þetta sé rangt.

„Hið rétta er að ég lánaði fyrirtækinu CCP Systems Ltd. samkvæmt þremur lánasamningum samtals að jafnvirði um 30 milljónir króna. Um hefðbundna lánasamninga var að ræða sem hafa ekkert með lög um gjaldeyrishöft að gera. Því er það rangt, sem haldið er fram í DV, að lánin séu „í trássi við gjaldeyrishaftalögin“. Allt útlit er fyrir að þetta fé muni glatast. Rétt er hins vegar hjá DV að ég afplána nú þann dóm sem ég hlaut. Með fullri auðmýkt vil ég minna á að dæmdir menn eru ekki réttlausir. Þeir eiga rétt á sanngjarnri umfjöllun eins og aðrir menn.“