DV tapaði máli sem Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, höfðaði gegn DV ehf., Reyni Traustasyni og Inga Frey Vilhjálmssyni, samkvæmt upplýsingum VB.is Dómurinn var kveðinn upp rétt eftir klukkan eitt í dag.

Jón Þorsteinn stefndi þeim vegna umfjöllunar blaðsins um mörg hundruð milljóna króna gjaldeyrisviðskipti Jóns Þorsteins. Jón Þorsteinn krafðist þriggja milljóna króna í skaðbætur. Jón Þorsteinn fullyrti að rangfærslur væru í fréttum DV af meintum fjármagnsflutningum hans og að gefið væri í skyn að hann hafi gerst sekur um refsiverðan verknað.

Dómurinn í máli Jóns Þorsteins gegn DV hefur enn ekki verið birtur opinberlega. VB mun fjalla betur um dóminn þegar hann verður birtur.

Uppfært 18:34. DV áfrýjar og dómurinn í heild.

Dómari dæmdi eftirfarandi ummæli á forsíðu blaðsins 12. og 13. nóvember í fyrra dauð og ómerk. Þau voru:

  • Laumaði stórfé úr landi.
  • Dulbúið sem lánaviðskipti.
  • Hundruð milljóna millifærð.

Þá voru eftirtalin ummæli á blaðsíðu 8 í blaðinu 12.-13. nóvember dæmd dauð og ómerk:

  • Jón Þorsteinn Jónsson hefur staðið í hundruð milljóna fjármagsflutningum frá Íslandi á síðastliðnum árum í trássi við gjaldeyrishaftalögin
  • Hefur flutt hundruð milljóna úr landi.
  • Þegar fjármunirnir eru komnir frá Íslandi og inn á erlenda bankareikninga greiðir lántakandinn peningana aftur til lánveitandans.
  • Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og einn af erfingjum Nóatúns á sínum tíma, hefur flutt mörg hundruð milljónir króna í erlendum gjaldeyri frá Íslandi á þessu ári og því síðasta.
  • Eini tilgangurinn með viðskiptunum er að koma gjaldeyri út úr landinu í trássi við höftin þó svo að viðskiptin sé(u) skilgreind sem lán.