„Ég hef mikla trú á því að Ísland eigi eftir að ná vopnum sínum með góðri viðspyrnu,“ segir fjárfestirinn Jón von Tetzchner, annar stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software. Fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag að Jón hafi nýtt sér fjárfestingarleið Seðlabankans sex sinnum og flutt hingað til lands tvo milljarða króna.

Jón hefur fjárfest í fasteignum hér á landi en einnig í fjórum tæknifyrirtækjum. Hann segir í samtali við blaðið að vegna  hættudreifingar kjósi hann að fjárfesta í fasteignum og þykir þær hóflega verðlagðar hér um þessar mundir.

„Fyrirtækjarekstur er áhættusamari en kaup á fasteignum, langflest fyrirtæki ná ekki fimm ára aldri, einungis um 20% þeirra tekst það. Það fylgir því vissulega einhver áhætta að fjárfesta á Íslandi. En ég reyni að synda á móti straumnum, það hefur reynst mér vel í gegnum tíðin,“ segir hann.

Jón hefur fjárfest í OZ, sem vinnur að nýrri dreifingu á sjónvarpsefni. Þá hefur hann fjárfest í netversluninni Budin.is, fjarskiptafyrirtækinu Hringdu og SmartMedia, sem selur og hýsir vefverslanir. Í Noregi á hann hlut í nýsköpunarfyrirtækinu We want to know sem býr til snjallsímaleikinn DragonBox og kennir börnum algebru. Þá segir í blaðinu að Jón á enn 3,5% hlut í Opera. Hann átti 15% hlut þegar hann hætti sem forstjóri fyrirtækisins árið 2010.