Jónar Tansport gáfu nú í janúar út geisladisk til minningar um Svandísi Þulu, 5 ára stúlku sem lest í bílslysi í Reykjavík 2. desember síðastliðinn. Diskurinn hefur selst vonum framar og viðbótarupplag er á leið til landsins. Allur ágóði sölunnar rennur í söfnun til stuðnings Nóna Sæ, 8 ára bróður Svandísar Þulu, sem slasaðist alvarlega í bílslysinu.

Jónar Transport leggja sitt af mörkum með því að flytja geisladiskana til landsins og tollafgreiða þá endurgjaldslaust. Fyrsta upplagið, 2.000 eintök, kom til landsins 8. janúar og hafði þá nánast selst upp í forsölu á Netinu. Því var ákveðið að láta framleiða 2.000 eintök til viðbótar hjá Sony í Salzburg í Austurríki.

Nágranni Nóna Sæs og fjölskyldu, Leone Tinganelli, samdi lagið Þula til minningar um Svandísi Þulu og hafði frumkvæði að því að gefa út á diski ásamt þremur öðrum lögum. Hin lögin á disknum eru Heyr himnasmiður með Helga Rafni, Svo langt að heiman með Margréti Eir og Af mestu náð með Páli Óskari. Útgáfufyrirtækið Frost annast útgáfu og dreifingu disksins.