Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segist ekki hafa komið að ákvörðun um kaup nýju bankanna á skuldabréfum í peningamarkaðssjóðum. Tilefni yfirlýsingar Jónasar er frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær og á Vb.is í dag þar sem sagði í fyrirsögn að Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra og Jónas hefðu tekið þessa ákvörðun. Var þá vitnað í tölvupóst sem Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sendi starfsmanni Fjármálaeftirlitið. Jón Þór kannaðist ekki við þessi samskipti í skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis.

Í yfirlýsingunni segir Jónas: „Ég tók ekki ákvörðun ásamt Björgvin G. Sigurðssyni, fyrrum viðskiptaráðherra, um kaup nýju bankanna á skuldabréfum gömlu bankanna af peningamarkaðssjóðum.  Fjármálaeftirlitið vann á faglegan hátt að uppgjöri sjóðanna, m.a. með tilmælum þann 17. október 2008, eins og nánar er lýst í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Það voru stjórnir nýju bankanna sem ákváðu að kaupa verðbréf sjóðanna með hliðsjón af verðmati óháðra endurskoðenda, eins og kemur fram í skýrslunni (4. hefti, bls. 229-239)."