„Mér þykir miður að tilraunin hafi ekki borið ávöxt. Að sjálfsögðu var miðað hærra enda tóku persónuleg veðmál mín mið af því,“ segir Jónas Björgvin Antonsson, einn stofnenda og fyrrverandi framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic. Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag hefur rekstri fyrirtækisins verið hætt , starfsfólk farið annað og hugverkaréttur fyrirtækisins á tölvuleikjum og hugbúnaði í söluferli. Félagið fór ekki í þrot og engin vanskil voru á rekstrinum.

Sjóðurinn Frumtak GP á 70% hlut í Gogogic samkvæmt ársreikningi fyrir uppgjörsárið 2011. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á 20% hlut og félagið Go Invest 10%. Frumtak er í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex lífeyrissjóða og bankanna Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Allir lögðu hart að sér

Jónas segir í samtali við VB.is sárt til þess að hugsa hvernig fór fyrir Gogogic. Jónas hætti sem framkvæmdastjóri Gogogic í fyrrahaust eftir að hafa endurskipulagt allan rekstur fyrirtækisins og skilað af sér samningi við alþjóðlega tölvuleikjafyrirtækið Sega um útgáfu á leiknum Godsrule. Hann segir Gogogic hafa þá verið nægilega fjármagnað og mannað til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart útgefanda leiksins. Hins vegar hafi verð tekin ákvörðun um að ef útgáfan gengi ekki yrði reynt að tryggja hagsmuni eigenda og starfsmanna fyrirtækisins.

Eins og VB.is sagði fyrr í dag var ákveðið að hætta rekstri Gogogic eftir að Sega tók tölvuleikinn úr sölu. Aðrir leikir Gogogic eru þó enn til sölu í smáforritaverslunum á borð við Apple.

„Enginn vafi lék á því, á þessu ári, að félagið gæti ekki staðið við sitt. En mér fannst mikilvægt að fólkið og fyrirtækið fengi að láta á þetta reyna, í eitt skipti fyrir öll,“ segir hann og bætir við að allir hafi lagt hart að sér enda hópurinn sem vann hjá Gogogic  einkar samhentur. Jónas segist sáttur við að Gogogic hafi afrekaði ýmislegt á þessum 7-8 árum sem fyrirtækið var í fullum rekstri. Þar á meðal var gott samstarf við NBC Universal og Nickelodeon.

Svona er leikjabransinn

„Við gerðum líka fyrsta MMO leikinn á Facebook og vorum á undan okkar samtíð því tveimur árum seinna urðu slíkir leikir afar vinsælir og sáum við ýmislegt í þeim sem við könnuðumst við. Í raun var félagið ekki nógu þroskað til þess að sjá suma af þeim góðu hlutum sem við vorum að gera á þeim tíma og hefðum getað nýtt okkur betur. En þegar á heildina er litið eru ansi margir sem spiluðu leikina okkar í gegn um tíðina. Sumir leikirnir urðu frekar vinsælir og þóttu skemmtilegir. Aðrir ekki. En þannig er leikjabransinn,“ segir Jónas og bætir við að hann sé hvað stoltastur yfir því að hafa náð að raða saman góðum hópi fólks.

„Mér sýnist að það sé slegist um þessa snillinga. Þeir sem hafa ákveðið að flytjast frá Íslandi, eins og ég, hafa svo tekið við millistjórnenda- eða stjórnendastöðum hjá King, framleiðanda Candy Crush, Rovio, Stardoll og fleiri stórum leikjafyrirtækjum,“ segir hann að lokum.