Jónas Björgvin Antonsson, stofnandi leikjafyrirtækisins Gogogic, hefur verið ráðinn í stöðu yfirmanns hjá sænska leikjafyrirtækinu Paradox. Á hans könnu verður þróun tölvuleikja fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Jónas hefur störf í enda mánaðarins.

Á meðal þekktra leikja fyrirtækisins eru Crusader Kings, Magicka og Europa Universalis ásamt fleirum. Jónas segir á Facebook-síðu sinni leiki Paradox á meðal margra sem honum finnist gaman að spila.

Jónas stofnaði eins og áður sagði leikjafyrirtækið Gogogic. Eins og VB.is hefur greint frá var rekstri þess hætt í enda ágúst.