Hæstiréttur sneri í gær við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva gerð í aðfararmáli Dróma gegn Jónasi Þór Þorvaldssyni, fyrrum starfsmanni Kaupþings og framkvæmdastjóra Landfesta (fasteignafélags í eigu Arion) og eiginkonu hans, Önnur Dagrúnu Pálsdóttur. Jónas Þór var áður framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Stoða.

Forsaga málsins er í stuttu máli sú að í mars 2008 tók Jónas Þór lán 38 milljóna króna kúlulán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Lánið var í íslenskum krónum og gengistryggt. Endurgreiðsludagar voru þrír á tólf mánaða fresti en fyrsti gjalddagi var 1. apríl 2009.

Hins vegar var aldrei greitt af láninu. Þá var 15 milljóna króna yfirdráttur á reikningi Jónasar Þórs fullnýtt og því ekki hægt að skuldfæra af reikningi hans fyrir láninu eins og samið hafði verið um. Til tryggingar greiðslu skuldabréfsins setti Jónas Þór tvö tryggingarbréf. Annars vegar verðtryggt tryggingarbréf, útgefið 5. janúar 2007, að fjárhæð 35.000.000 kr. sem hvíldi á 3. veðrétti fasteignar hans að Bakkastöðum 47 í Reykjavík. Hins vegar verðtryggt tryggingarbréf, útgefið 30. maí 2007, að fjárhæð 50.000.000 kr. sem hvíldi á 4. veðrétti sömu fasteignar.

Drómi, sem er í raun slitastjórn SPRON, fór í janúar sl. fram á fjárnám hjá Jónasi Þór og Önnu Dagrúnu, þar sem hún var einnig eigandi að sömu fasteign. Hvorugt þeirra mætti við fyrirtöku hjá sýslumanni en sýslumaður ákvað engu að síður að stöðva aðfaragerðina að eigin frumkvæði þar sem hann mat það sem svo að í ljósi fyrri dóma Hæstaréttar um gjaldeyrislán væri óljóst hversu mikil skuld Jónasar Þór væri við Dróma.

Dróma féllst ekki á þessa niðurstöðu og kærði ákvörðunina til Héraðsdóms Reykjavíkur – sem síðar staðfesti úrskurð sýslumanns. Hvorki Jónas Þór né Anna Dagrún tóku til varna í málinu. Sem fyrr segir hefur Hæstiréttur nú snúið þeim úrskurði við og í dómi Hæstaréttar kemur fram að sýslumaður hafi ekki átt að stöðva aðfarargerðina af sjálfsdáðum. Þá er Jónasi Þór og Önnu Dagrúnu gert að greiða málskostnað að upphæð 300 þús.kr. hvort.

Tímaritið Sirkus greindi frá því í júní 2007 að Jónas Þór, sem er bróðir Ármanns Þorvaldssonar, fyrrum forstjóra Kaupthing Singer & Friedlander, hefði keypt einbýlishúsið að Bakkastöðum 47 fyrir 40 milljónir króna og í kjölfarið látið jafna það við jörðu.

Sjá dóm Hæstaréttar.