Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður var skipaður yfir slitastjórn Landsvaka, þegar Landsvaki var tekinn til slitameðferðar þann 28. nóvember síðastliðinn.

Landsvaki var dótturfyrirtæki Landsbankans hf. fyrir hrun og rak verðbréfasjóði. Þann 31. mars í fyrra voru sjóðir Landsvaka seldir til Landsbréfa, dótturfélags Nýja Landsbankans, og fluttist starfsemi Landsvaka þangað. Allt starfsfólk Landsvaka fluttist þangað með breytingunni.

Í tilkynningu Lögbirtingablaðinu í dag er skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á Landsvaka að lýsa kröfum sínum fyrir slitastjórn þess innan þriggja mánaða.

Kröfuhafafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til lýstra krafna verður haldinn í íþróttahúsinu Kaplakrika, fundarsalnum Sjónarhóli, Hafnarfirði, föstudaginn 11. apríl næstkomandi.