Jónína Benediktsdóttir líkamsræktarfrömuður greindi frá því í dag að hún væri gengin til liðs við Framsóknarflokkinn. Hún hefur áður verið í flokknum og var í 15. sæti á framboðslista hans í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2010. Hún gekk úr honum vegna óánægju með oddvita flokksins með þeim orðum að hún treysti því ekki að spillt öfl séu horfin úr flokknum.

Í tilkynningu sem Jónína sendi fjölmiðlum í dag segir hún:

„Framsókn hefur lært af fortíð sinni, lagað til í liði sínu, valið formann sem þorir og hugsar bara um lausnir fyrir landið okkar.  Því hef ég ákveðið að leggja flokknum starfsþrek mitt. Persónukjör er ekki í boði fyrir næstu kosningar. Ég skora því á alla þá sem trúa á endurreisn Íslands að sameinast um flokkinn sem vill vinna hratt að lausnum. Framsóknarfólki líkar illa núverandi kyrrseta þess vegna þurfum við að koma að nýrri ríkisstjórn.“

Í samtali við DV í dag mærir Jónína Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, og segist hún ætla að einbeita sér að málefnum landsbyggðarinnar, sem sé að blæða út vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.