Jónína Guðmundsdóttir hefur tekið við stöðu forstjóra íslenska lyfjafyrirtækisins Coripharma . Bjarni K. Þorvarðarson fráfarandi forstjóri tekur við stjórnarformennsku. Þá hefur Valur Ragnarsson tekið sæti í stjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Coripharma .

Jónína hefur sinnt stjórnunarstöðum í lyfjageiranum um 20 ára skeið. Hún leiddi viðskiptaþróun Medis í 15 ár og var lengi staðgengill forstjóra. Hún var áður framkvæmdastjóri Medis á Íslandi. Medis er dótturfyrirtæki Actavis / Teva sem sérhæfir sig í sölu á lyfjahugviti og samheitalyfjum til annarra lyfjafyrirtækja um allan heim. Jónína lauk meistaragráðu í lyfjafræði við Háskóla Íslands árið 1999.

„Ég hef fylgst með Coripharma frá upphafi og er full eftirvæntingar að fá að vinna með okkar frábæra starfsfólki. Þetta er teymi á  heimsmælikvarða í þróun og framleiðslu samheitalyfja," er haft eftir Jónínu i fréttatilkynningunni.
„Það verður spennandi að fá að taka þátt í að efla sókn félagsins enn frekar á erlenda markaði enda vöruþróunin komin á gott skrið og markaðsstarfið því sérlega mikilvægt á þessum tímapunkti.

Á þessum sérstöku tímum þá leitar hugurinn einnig að mikilvægi þess að byggja upp og styrkja íslenskt atvinnulíf á sem fjölbreyttastan hátt. Við hjá Coripharma sjáum fram á einstök vaxtartækifæri og ætlum áfram að vera mikilvægur vinnuveitandi í þróunar- og tæknigeiranum á Íslandi.“

Bjarni, sem hefur verið forstjóri félagsins frá stofnun þess árið 2018, verður áfram einn af stærstu hluthöfum Coripharma og tekur við stjórnarformennsku á stjórnarfundi í næstu viku. Valur , fyrrverandi forstjóri Medis , hefur tekið sæti í stjórn Coripharma en hann hefur starfað hjá lyfjafyrirtækjum í þrjá áratugi og er menntaður lyfjafræðingur. Hann hefur jafnframt setið í stjórn nokkurra lyfjafyrirtækja.

Aðrir í stjórn Coripharma eru Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fráfarandi stjórnarformaður, Arnór Gunnarsson, Hrafn Árnason, Ólöf Þórhallsdóttir og Sigurgeir Guðlaugsson.