Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hafnar því að skrifstofa flokksins hafi staðið með óeðlilegum hætti að þjónustu við framboð Heimis Hannessonar í Heimdalli líkt og gefið hefur verið í skyn.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. Forsaga málsins er í stuttu máli sú að Heimir hafði í nokkurn tíma undirbúið framboð gegn sitjandi formanni Heimdallar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, en aðalfundur félagsins fer fram annað kvöld. Heimir skilaði þó ekki inn framboði í gærkvöldi þegar framboðsfresturinn rann út og í tilkynningu til fjölmiðla í dag rekur Heimir ástæðurnar fyrir því.

Þar segir Heimir m.a. að boðað hafi verið til fundarins rétt fyrir verslunarmannahelgi auk þess sem starfsmenn Valhallar, skrifstofu Sjálfstæðisflokksins, séu í sumarfrí og því hafi ríkt óvissa um þjónustu við framboðið, s.s. nýskráningar í flokkinn. Þá sakar Heimir skrifstofu flokksins um að hafa afhent framboðinu lista yfir meðlimi Heimdallar á pappírsformi en ekki rafrænu formi eins og óskað var eftir. Í fyrrnefndri tilkynningu frá Heimi er sérstaklega vikið að Jónmuni og hann ekki sagður starfi sínu vaxinn.

Í samtali við rúv.is segir Jónmundur þó að í farið hafi verið eftir sömu reglum og viðhafðar eru gagnvart öllum frambjóðendum á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þannig hafi Heimir fengi þau gögn sem óska var eftir innan sólarhrings og á sama formi og tíðkast hefur, en venjan er sú að frambjóðendur fá lista yfir kjörskrá á pappírsformi sem ekki er ætlað til afritunar.

Þá krefst Jónmundur þess að Heimir dragi ásakanir á hendur sér og starfsfólki Sjálfstæðisflokksins til baka.

Sjá frétt RÚV.