Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hann tekur við af Grétu Ingþórsdóttur sem tók tímabundið við starfinu skömmu fyrir kosningar í vor eftir að Andri Óttarsson lét af störfum. Andri var ráðinn haustið 2006 og tók við af Kjartani Gunnarssyni sem hafði gegnt starfinu frá árinu 1980.

Í bréfi sem Jónmundur sendi samstarfsmönnum sínum á Nesinu eftir hádegi í dag segir hann að ástæða þess að hann tekur að sér starfið sé að það feli í sér tækifæri til að takast á við vanda þjóðarinnar og þá uppbyggingu  sem nauðsynleg sé.

„Hverjum vanda fylgja tækifæri og ég tel að  störf mín og reynsla héðan af Nesinu geti komið að gagni,“ segir Jónmundur í bréfinu.

Ákvörðun um ráðningu Jónmundar var tekin á fundi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var eftir hádegi í dag.