Auglýsingastofan Jónsson & Le’macks hefur tryggt sér auglýsingasamning við skoska áfengisframleiðandann William Grant vegna auglýsinga á Reyka vodka en stofan fór með sigur af hólmi í samkeppni við tvær erlendar auglýsingastofur. William Grant er einn helsti viskíframleiðandi heims og á m.a. vörumerkin Grant’s, Glenfiddich og Tullamore Dew auk Reyka vodka sem er framleiddur hér á landi.

Viggó Örn Jónsson, annar eigenda stofunnar, segir William Grant hafa haft samband við J&L og boðið þeim að taka þátt í samkeppni við stofur sem þegar höfðu unnið fyrir fyrirtækið, eina enska og eina bandaríska. „Samkeppnin hófst í lok janúar og við fengum að vita niðurstöðurnar í síðustu viku,“ segir hann. Aðspurður segir Viggó enn ekki ljóst hversu stóran samning sé um að ræða, það muni ráðast af því hvernig vinnunni miðar. Hann segir fyrstu afurðirnar sennilega tilbúnar eftir 2-3 mánuði.