Auglýsingastofan Jónsson & Le’macks er tilnefnd til Cannes-verðlauna í hönnunarflokki fyrir umbúðir sem stofan hannaði fyrir Norðursalt. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu voru innsendingar í keppnina í ár tæplega 40 þúsund, alls staðar að úr heiminum. Umbúðirnar fyrir Norðursalt hafa unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga á Íslandi, bæði í FÍT keppninni og Lúðrinum.

„Við erum himinlifandi að fá tilnefningu á Cannes fyrir Norðursalt“, segir Albert Muñoz, yfirhönnuður á Jónsson & Le'macks, í tilkynningu.  Hann segir að stofan leggi mikinn metnað í þróun vörumerkja og það sé frábært að vinna slík verkefni með viðskiptavinum sem hafi metnað til að gera sannarlega vandaða hluti. „Reynsla okkar sýnir að slík vinnubrögð skila sér ekki bara í verðlaunum heldur einnig betri árangri fyrir vöruna, sem er aðalatriðið.“