Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra telur til flytja þjónustu við fatlaða og aldraða semog rekstur minni sjúkrahúsa færist til sveitarfélaga. Þetta kemur fram í ræðu Halldórs á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin er í dag.

Forsætisráðherra telur að horfa þurfi til frekari verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga en ekki aðeins á tilfærslu tekjustofna. Orðrétt sagði ráðherra meðal annars:

"Ég tel einnig mikilvægt að huga að áframhaldandi flutningi ýmissa þjónustuverkefna frá ríki til sveitarfélaga og stuðla þannig að bættri þjónustu við íbúa hvers sveitarfélags. Við þurfum sífellt að spyrja okkur hvernig hægt er að bæta þjónustu við íbúana. Það á að vera leiðarljós allra breytinga á þessu sviði. Hér vil ég sérstaklega nefna málefni fatlaðra, heilsugæslu, heimahjúkrun, öldrunarþjónustu og minni sjúkrahús auk svæðismiðlunar og atvinnuráðgjafar. Ég tel að sveitarfélögin séu betur í stakk búin en ríkið að sinna þessari þjónustu, þau eru í nánari tenglum við sitt heimafólk og finna betur hvaða þörfum er brýnast að sinna og hvernig þjónustunni verður best fyrir komið. Að sjálfsögðu verður þó ekki af slíkum verkefnaflutningi nema sveitarfélögin lýsi sig tilbúin til að taka við auknum verkefnum og að fundin verði leið til að færa þeim tekjustofna til að standa straum af kostnaði."