Á forsíðu danska viðskiptablaðsins Börsen er sagt frá því að þarlendir bankar þurfi að auka verulega hlut sinn í þjónustutekjum umfram vaxtatekjur. Þjónustutekjur námu alls 16 milljörðum danskra króna á síðasta ári, sem er var metár. Samtök banka í Danmörku segja hins vegar að auka þurfi þjónustutekjur um a.m.k. 5-10 milljarða danskra króna á ári ef bankakerfið á að standast samanburð við lönd eins og Svíþjóð, Holland og Þýskaland.

Vaxtatekjur dönsku bankanna hafa farið lækkandi sem hlutfall af heildartekjum á undanförnum árum en það er svipuð þróun og verið hefur hér á Íslandi. Bankarnir í Danmörku ætla sér auknar þjónustutekjur með því að bjóða fram nýjar afurðir fyrir einstaklinga. Á undanförnum árum hafa einstaklingar notfært sér sífellt breiðari svið ýmiss konar fjármálaþjónustu t.d. lífeyrissparnað, hlutabréfaviðskipti og margháttuð rafræn viðskipti.

Þjónustutekjur hafa aukist úr 6 milljörðum í 16 milljarða danskra króna á undanförnum 10 árum og nema í dag um þriðjung af heildartekjum danska bankakerfisins. Þetta er hins vegar þó nokkuð lægra hlutfall en t.a.m. í Svíþjóð þar sem þjónustutekjur eru 56% af heildartekjum og 45% í Hollandi.

"Miðað við þá samkeppni sem er í dag eru ekki mikið rými til þess að breyta vaxtastigi eða hækka verð á þjónustugjöldum. En fólk vill gjarnan borga fyrir góða ráðgjöf og þjónustu sem eykur verðmæti eigna þeirra," segir Peter Lybecker yfirmaður Nordea bankans í Danmörku í samtali við Börsen.