„Aðstæður á mörkuðum eru óvenjulegar og með þessu er ríkisvaldið að freista þess að vernda fjármálalegan stöðugleika og alla viðskiptavini bankans, hvort sem þeir eru sparifjáreigendur eða skuldarar," sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Björgvin sagði að röð atvika hefði rekið Glitni inn í lausafjárvanda. Bankinn hefði verið fórnarlamb aðstæðna því fyrir utan lausafjárvanda hefði staða hans verið mjög sterk. Síðdegis á föstudag hefði ríkisstjórninni verið gert viðvart um málið og niðurstaða ríkisstjórnar og Seðlabankans um aðkomu lægi nú fyrir. Ríkið legði áherslu á að vernda fjármálalegan stöðugleika og kvaðst Björgvin vonast til að aðgerðirnar yrðu til þess að styrkja íslenskt fjármálakerfi í heild sinni og koma í veg fyrir gjaldþrot fjármálafyrirtækja.

„Ég á von á að þetta hafi jákvæð áhrif á stöðu annarra fjármálastofnana," sagði Björgvin en sagðist ekki draga dul á að niðurstaðan fæli í sér „skelfilegar fréttir" fyrir alla hlutafjáreigendur í Glitni.

Það vakti athygli að Seðlabankinn hlutaðist til um þessar aðgerðir en ekki viðskiptaráðherra, sem fer með bankamál í ríkisstjórninni.

Björgvin staðfesti við Viðskiptablaðið að hann sjálfur hefði ekki sótt fundinn í Seðlabankanum á sunnudagskvöld þar sem málið var m.a. kynnt stjórnarandstöðuleiðtogum, heldur hefði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra verið fulltrúi Samfylkingarráðherra þar, ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins.

Björgvin sagði að Össur hefði verið staðgengill Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, en hún er veik, sem kunnugt er. Sjálfur sagðist Björgvin hafa verið upptekinn á öðrum fundi vegna málsins á sama tíma.

Hann sagði að stjórnendur Glitnis hefðu leitað til Seðlabankans vegna lögbundins hlutverks hans sem lánveitanda til þrautavara og málið hefði verið í eðlilegum ferli í höndum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Þjóðnýting bankans væri í fyrstu kostuð með framlagi úr gjaldeyrisvarasjóðnum. Málið væri hins vegar á ábyrgð ríkisins en á endanum kæmi það til kasta Alþingis þegar frumvarp til laga  yrði lagt fyrir þingið.