Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson, maðurinn á bakvið fatamerkið JÖR, boðar endurkomu í færslu á Facebook. Þar segir Guðmundur að eftir hálfgert hlé síðastliðin ár frá fatahönnun hafi hann ákveðið að byrja á ný að sinna ástríðu sinni, sem sé að hanna fatalínur. Ný fatalína verði kynnt og sett í sölu næsta vetur.

Til að rýma til og ekki síður fjármagna gerð og framleiðslu nýrrar fatalínu ætlar Guðmundur að slá upp JÖR-fatamarkaði á Kex Hostel næstkomandi laugardag. Í færslunni segir hann fjölbreytt úrval af vörum frá JÖR sem hannaðar og framleiddar hafi verið á síðastliðnum áratug verði til sölu á „frábærum verðum“.

„Um er að ræða bland af nýlegri vöru, eldri eintökum og sýningareintökum sem ég hef til þessa ekki týmt að láta frá mér. Ég hlakka til að byrja að hanna fatalínur á ný og vona að það muni um leið gleðja fleiri,“ segir í Facebook færslu Guðmundar.

Guðmundur rak um nokkurra ára skeið verslunina JÖR í miðbæ Reykjavíkur en fyrirtækið fór í þrot snemma árið 2017. Í lok árs 2021 opnaði hann ásamt viðskiptafélögum sínum þeim Benedikt Andrasyni og Kjartani Óla Guðmundssyni fata-, hönnunar-, lífsstílsverslunina, veitingastaðinn og vínbarinn Nebraska á Barónsstíg í miðbænum.