Fyrrverandi körfuknattleiksmaðurinn Michael Jordan er tekjuhæsti fyrrum íþróttamaðurinn samkvæmt úttekt Forbes . Tímaritið metur tekjur hans á árinu 2014 hundrað milljónir bandaríkjadollara. Jordan er 52 ára gamall og spilaði sinn síðasta körfuboltaleik sem atvinnumaður árið 2003. Næstur á eftir honum á listanum er knattspyrnumaðurinn David Beckham með 42 milljónir í tekjur á síðasta ári.

Mestar tekjur hefur hann af því að ljá nafn sitt við skóvörumerki íþróttavöruframleiðandans Nike en Nike Jordan skór seldust á síðasta ári fyrir 2,6 milljarða bandaríkjadollara og jukust um heil 17%. Aðrar tekjur hefur hann af styrktarsamningum við fyrirtæki á borð við Gatorade, Hanes, Upper Deck, 2K Sports og Five Star Fragrances. Hann á einnig 90% hlut í körfuboltaliðinu Charlotte Hornets sem gerði hann að milljarðamæringi á síðasta ári.

10 tekjuhæstu fyrrum íþróttamennirnir samkvæmt lista Forbes.

  1. Michael Jordan (100 milljónir dollara)
  2. David Beckham (42 milljónir dollara)
  3. Arnold Palmer (42 milljónir dollara)
  4. Jack Nicklaus (28 milljónir dollara)
  5. Jerry Richardson (23 milljónir dollara)
  6. Shaquille O´Neill (21 milljón dollara)
  7. Gary Player (21 milljón dollara)
  8. Magic Johnson (20 milljónir)
  9. Pelé (16 milljónir)
  10. Greg Norman (16 milljónir)