Þjórsárbrú hin nýja hefur hlotið viðurkenningu Norræna vegasambandsins og sló þar með við stórbrúm eins og Eyrarsundsbrúnni milli Danmerkur og Svíþjóðar. Brúa- og jarðgangnanefnd Norræna vegasambandsins stendur fyrir samkeppni fjórða hvert ár þar sem aðilarlönd geta tilnefnt tvö verkefni sem unnin hafa verið síðustu átta árin þar á undan.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að samkeppnin snúist ekki um að velja stærstu eða hæstu verkefnin, heldur „verk sem eru áleitin í verkfræðilegum skilningi.”

Formaður dómnefndar benti á að Þjórsárbrúin hefði verið valin vegna þess að hún var hönnuð til að þola stóra jarðskjálfta án þess að það kæmi niður á burðarþoli hennar eða útliti. Einnig falli hönnun brúarinnar vel inn í náttúruna.