Jórunn Frímannsdóttir borgarfulltrúi býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 23. janúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jórunni sem verið hefur borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2006 og varaborgarfulltrúi frá árinu 2002.

Jórunn útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1993 og starfaði sem slíkur í mörg ár, meðal annars við heimahjúkrun, á heilsugæslustöðvum og á geðdeild. Hún hefur einnig unnið við markaðssetningu á lækna- og hjúkrunarvörum og rak eigið fyrirtæki, doktor.is, frá árinu 2002 þar til hún tók sæti í borgarstjórn árið 2006.

Á kjörtímabilinu hefur Jórunn verið formaður velferðarráðs og formaður stjórnar Strætó BS ásamt því að sitja í fjölda nefnda og ráða á vegum borgarinnar, þar má nefna framkvæmdaráð, velferðarráð og skipulagsráð.

„Með framboði sínu leggur Jórunn aðaláherslu á velferðar-, samgöngu og heilbrigðismál,“ segir í tilkynningunni.

Jórunn er, eins og áður segir, hjúkrunarfræðingur að mennt og stefnir á að ljúka M.P.A námi frá Háskóla Íslands á næsta ári. Hún er gift Sigurbirni Jónassyni iðnaðartæknifræðingi og eiga þau þrjú börn.