Á aðalfundi Þróttar í gærkvöldi var Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kosin formaður Knattspyrnufélagsins Þróttar og mun það vera í fyrsta sinn sem kona gegnir stöðu formanns í einu af stóru félögunum í Reykjavík.

Ásamt henni sitja í stjórninni Sigurbjörn Jónasson, Hafliði Helgason, Egill Heiðar Gíslason og Andrea Þormar.

„Fráfarandi stjórn hefur unnið einstaklega gott starf og hafa orðið miklar breytingar á félaginu undanfarin ár,“ segir í tilkynningu frá nýrri stjórn.

„Ný stjórn er þess fullbúin að takast á við ný og krefjandi verkefni og gera félagið enn öflugra en það er nú þegar.“

Þá kemur fram að miklar breytingar liggja fyrir varðandi aðstöðu félagsins og verður ráðist í gerð nýs gervigrasvallar í haust. Í framhaldi af því verður gamla gervigrasvellinum breytt í grasvöll sem mun verða framtíðarheimavöllur Þróttar.