Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, var kjörin nýr stjórnarformaður Strætó bs. á síðasta stjórnarfundi byggðasamlagsins. Jórunn tekur við af Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarfulltrúa í Kópavogi, sem lét af formennsku eftir að hafa gegnt embættinu frá júlí 2006, segir í fréttatilkynningu.

Ármann hefur setið í stjórn Strætó bs. og fyrirrennara byggðasamlagsins sl. 10 ár, þar af tvö ár sem formaður stjórnar. Við þessi tímamót gengur hann einnig úr stjórn Strætó bs. og er honum þakkað framlag sitt sl. 10 ár.

„Stjórnarformennska í Strætó bs. er afar spennandi en um leið krefjandi verkefni. Ég tel mikilvægt að standa vörð um almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins og að þær séu traustar, áreiðanlegar og veiti góða þjónustu. Til að það takist þurfa sveitarfélögin sem að byggðasamlaginu standa að móta skýra stefnu til framtíðar og vinna öll sem eitt samkvæmt þeirri stefnu. Um leið þurfum við að sjá til þess að staðið sé að rekstri félagsins með eins hagkvæmum hætti og kostur er,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs., í fréttatilkynningunni.