Hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz, sem staddur var á Íslandi um helgina, er ekki jafn bjartsýnn og margir aðrir á að batamerki séu sjáanleg í bandaríska hagkerfinu og gerir í versta falli ráð fyrir að botninum sé enn ekki náð vestanhafs.

Þetta kemur fram í samtali Stiglitz við BBC en Stiglitz segir að líkurnar á kerfisbundnum bata á bandaríska hagkerfinu séu „mjög, mjög veikar,“ eins og hann orðar það sjálfur.

Stiglitz talar um svokallaða endurdýfu eða það sem á ensku kallast double-dip. Þar er átt við hagkerfi sem byrjar á því að dragast saman (líkt og á við um flest hagkerfi heims í dag), hefja síðan smá vöxt og taka aðra dýfu niður á við í kjölfarið.

Í samtalinu við BBC segi Stiglitz að enn sé ekkert í hendi sem bendi til þess að bandaríska hagkerfið muni ná sér til lengri tíma, þvert á móti eigi menn það til að ofmeta öll skref upp á við sem batamerki. Máli sínu til stuðnings segir Stiglitz að öll skref upp á við hafi komið í kjölfar opinberra aðgerða sem geti ekki haldið áfram endalaust.

„Um leið og [bandaríska] ríkisstjórnin hættir að dæla peningum inn í hagkerfið, líklega árið 2011, mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hagkerfið þar í landi,“ segir Stiglitz.

„Menn þurfa að byggja undirstöðurnar betur þannig að hagkerfið verð sjálfbært.“