Jötunn Holding ehf. keypti í Glitni fyrir 18,75 milljarða króna í gær, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni sem birtust í dag. Ekki er vitað hver seljandinn er.

Hluturinn var keyptur á genginu 29 krónur á hlut. Annars vegar var um 506.614.131 hluti að ræða og hinsvegar 140.000.000 hluti. Gengi Glitnis var 26,9 krónur á hlut við lok markaðar í gær, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Jötunn Holding ehf. er í 35% eigu Baugs Group hf. og er Stefán Hilmar Hilmarsson, framkvæmdastjóri hjá Baugi Group hf. eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins.

Skarphéðinn Berg Steinarsson er stjórnarmaður í Glitni banka hf., og jafnframt er hann framkvæmdastjóri hjá Baugi Group hf.

Eftir viðskiptin á Baugur Group hf. á enga hluti og Jötunn Holding ehf. á 646.657.142 hluti í Glitni banka hf. og FL Group hf.