Jötunn vélar ehf. hafa ásamt Svenningsens Maskinforretning A/S stofnað fyrirtækið Total Maskiner A/S á Sjálandi í Danmörku.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að stofnun Total Maskiner er liður í útrás Jötunn Véla inn á erlenda markaði með að markmiði að efla fyrirtækið og stækka til að skapa tækifæri fyrir hagstæðari innkaup og öflugri þjónustu fyrir íslenska bændur eins og segir í tilkynningunni.

Með stofnun Total Maskiner verður til öflugt vélasölufyrirtæki í Danmörku þar sem áhersla verður lögð á sölu Massey Ferguson og Fendt dráttarvéla, ýmissa landbúnaðarvéla og breiðs úrvals vinnuvéla. Sölusvæði Total Maskiner er á Sjálandi í Danmörku. Áætlanir eigenda gera ráð fyrir að velta Total Maskiner verði orðin um 1,4 milljarður íslenskra króna eftir 2 ár.

Svenningsens er 145 ára fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu á vélum fyrir sveitarfélög og græn svæði s.s. golfvelli. Höfuðstöðvar Svenningsens eru í Kaupmannahöfn en fyrirtækið er einnig með útibú í Noregi og Svíþjóð.

Jötunn Vélar er eitt öflugasta fyrirtæki landsins í sölu véla og tækja fyrir landbúnað og var velta fyrirtækisins árið 2006 tæpur 1,5 milljarðar. Helstu vörumerki Jötunn Véla eru Massey Ferguson og Valtra dráttarvélar, Vicon og Pöttinger jarð og heyvinnutæki, Schaffer liðstýrðar mokstursvélar og Mullerup fóðrunarkerfi.

Höfuðstöðvar Jötunn Véla eru á Selfossi en markaðssvæði fyrirtækisins er allt landið. Starfsmenn Jötunn Véla eru 14.