Um 30 þúsund þýskir sparifjáreigendur sem eiga fé á reikningum Kaupthing Edge í Þýskalandi óttast nú um innistæður sínar.

Þeir átelja þýsk yfirvöld fyrir að aðhafast ekki í málinu og reyna nú að knýja fram aðgerðir af hálfu stjórnvalda í Berlín.

Samkvæmt upplýsingum Finacial Times Deutschland hefur þýska fjármálaráðuneytið þó enn ekki haft samband við íslensk stjórnvöld vegna málsins. Í frétt blaðsins kemur fram að inneign þýskra sparifjáreigenda hjá Kaupthing Edge nemur um 308 milljónum evra eða um 46 milljörðum króna miðað við að evra kosti 150 krónur.

Kaupthing Edge í Þýskalandi var lokað fyrir sex dögum en þrjá síðustu dagana fyrir lokunina tóku þýskir sparifjáreigendur samtals liðlega 200 milljónir evra út af Kaupthing Edge þannig að innlánin hafa þá væntanlega numið liðlega hálfum milljarði evra áður en stormurinn skall af fullum þunga á íslensku bönkunum.

Þýsk fjármálayfirvöld gripu þá til þess ráðs að loka fyrir úttektir af Kaupthing Edge til þess að vernda þær eignir sem eftir stóðu, en ekki hefur fengist upplýst hversu miklar þær eignir eru sem eiga þá að standa á móti umræddum 300 milljónum evra.

Óvíst um fjárhagslega getu Íslands

Financial Times Deutschland segir stöðu þýsku sparifjáreigendanna óvissa, ekki síst þar sem starfsemi Kaupthing Edge í Þýskalandi hafi verið undir „ósjálfstæðu hliðarútibúi“.

Svo lengi sem Kaupþing hafi ekki verið lýst gjaldþrota geti þýskir sparifjáreigendur ekki krafið Tryggingarsjóð innstæðueigenda á Íslandi um greiðslur og vegna afar erfiðrar fjárhagslegrar stöðu Íslands sé reyndar yfirhöfuð óvíst um þá tryggingu.

Bent er á að heildarskuldbindingar íslensku bankanna þriggja, sem ríkið hafi nú tekið yfir, nemi um 61 milljarði dala eða um tólffaldri landsframleiðslu Íslands.