Enn heldur erlend skuldabréfaútgáfa áfram en þýski bankinn KfW gaf út skuldabréf í íslenskum krónum að fjárhæð 3 ma.kr í dag. Erlend skuldabréfaútgáfa í íslenskum krónum nemur nú því alls 24 milljörðum króna. Skuldabréfin bera ábyrgð þýska ríkisins og er ávöxtunarkrafa þeirra 8,25%. Krafa skuldabréfa annarra erlendra aðila, sem hafa gefið út bréf í íslenskum krónum undanfarna daga, hefur hins vegar verið hærri eða á bilinu 8,5%-9% eins segir í Hálffimm fréttum KB banka.

"Lægri kröfu í þessu útboði má væntanlega rekja til þess að ávöxtunarkrafa stuttra óverðtryggðra íslenska ríkisbréfa hefur lækkað umtalsvert frá því að erlendir aðilar hófu skuldabréfaáutgáfu í íslenskum krónum. Til þess að erlendu aðilarnir hagnist á því að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum þurfa þeir að fjárfesta krónurnar á hærri vöxtum en þeir borga af skuldabréfum sínum," segir í Hálffimm fréttum

Vegna lækkandi nafnávöxtunarkröfu fá erlendu aðilarnir lægri vexti á Íslandi og borga því lægri vexti af útgefnum skuldabréfum. Eins og fjallað var um í Hálffimmfréttum í gær má búast við því að áframhaldandi skuldabréfaútgáfa erlendra aðila í íslenskum krónum sé takmörkuð þar sem markaðsvirði íslenskra óverðtryggða skuldabréfaflokka er lágt. Aukin eftirspurn eftir þessum flokkum skuldabréfa ætti því að valda hraðri lækkun á ávöxtunarkröfu þeirra og þannig eyða þeim högnunarmöguleikum sem hafa verið til staðar.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.