Þjóðverjar og Frakkar vilja að Portúgalir þiggi neyðaraðstoð sem fyrst svo skuldakrísan breiðist ekki út til annarra landa Evrópu. Þetta kemur fram á vef þýska tímaritsins Der Spiegel.

Tímaritið segir að sérfræðingur á vegum stjórnvalda í Þýskalandi og Frakklandi séu afar áhyggjufullir yfir ástandinu í Portúgal eftir að fjármögnunarkostnaður landsins hækkaði mjög í lok síðasta árs.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að Svissneski seðlabankinn væri hættur að taka portúgölsk ríkisskuldabréf sem veð í viðskiptum sínum við banka og lánastofnanir.

Að sögn tímaritsins vilja bæði stjórnvöld í Þýskalandi og Frakklandi að aðildarlönd evrunnar og Evrópusambandsins skuldbindi sig til að stækka neyðarsjóð ESB, sem er 750 milljarðar evra að stærð, eða tæplega 114 þúsund milljarðar króna.