Ríkisstjórn Þýskalands hefur samþykkt að veita um 50 milljörðum evra í opinberar framkvæmdir í Þýskalandi til að örva hagkerfið þar í landi.

Enn á eftir að útfæra hvernig fjármagninu verður varið en BBC hefur eftir ónefndum embættismanni innan þýsku stjórnsýslunnar að lögð verði áhersla á byggingu skóla, vegaframkvæmdir, lestasamgöngur og önnur opinber mannvirki auk þess sem skattaafslættir og aðrar skattaívilnanir eru fyrirhugaðar.

Viðmælandi BBC segir að þetta sé í annað sinn sem reynt sé að blása lífi í stærsta hagkerfi Evrópu en í lok nóvember samþykkti þýska þingið að veita um 23 milljarða evra til beinnar innspýtingar inn í fjármálakerfi landsins.

Að sögn BBC munu þessi aukaútgjöld þó ekki leysa helsta vandamál þýsks hagkerfis, útflutninginn.

Þýska hagkerfið reiðir sig að miklum hluta á útflutning, svo sem bíla og aðra vélaframleiðslu, sem hefur farið minnkandi síðustu mánuði og í nóvember síðastliðnum hafði útflutningur ekki mælst minni frá árinu 1990.