Stjórnvöld í Bretlandi vinna nú hörðum höndum að björgun Bradford & Bingley (B&B) bankans. Skýrist framtíð bankans væntanlega í dag en áform spænska bankans Banco Santander um yfirtöku B&B fóru út um þúfur.

Breska blaðið Guardian segir frá því að ef af þjóðvæðingu B&B verður þá muni hún aðeins vera hugsuð sem tímabundið úrræði. Þannig gæfist Banco Santander, eða öðrum áhugasömum fjárfestum, aukinn tími til þess að undirbúa kaupsamning.

Guardian hefur það eftir fjármálaráðuneyti Bretlands að óhugsandi verði að útibú B&B opni á morgun, minnugir aðgerða áhyggjufullra sparifjáreigenda Northern Rock. Óttast er að slíkt geti hent B&B ef ekkert verður aðhafst.

Líkur benda einnig til þess að gengi hlutabréfa í B&B muni snarfalla við opnun markaða á mánudaginn, bréf félagsins lækkuðu mjög í síðustu viku.

Stjórnvöld hafa verið sögð í viðræðum við Santander bankann um yfirtöku á B&B í um vikutíma. Forsvarsmenn spænska bankans vilja þó ekki taka yfir eignir B&B eins og staðan er nú, nema til opinbers stuðnings komi.

Bradford & Bingley bankinn hefur sérhæft sig í fasteignalánum.