JP Morgan Chase, stærsti banki Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að hann sé undir rannsókn bandarískra stjórnvalda vegna viðskipta bankans með gjaldeyri. BBC News greinir frá þessu.

Bankinn segir að mögulegt tap hans vegna málsins gæti numið 5,9 milljörðum bandaríkjadollara, en það jafngildir um 725 milljörðum íslenskra króna. Fleiri bankar hafa lagt til hliðar háar fjárhæðir vegna svipaðra mála, en þar á meðal eru Royal Bank of Scotland og Barclays bankinn. Einnig eru alþjóðlegu lánveitendurnir Citigroup og UBS undir rannsókn vegna gjaldeyrisviðskipta.

JP Morgan segir bankann vera í fullu samstarfi við stjórnvöld og hafa hafið viðræður til þess að leysa málið. Hins vegar sagði bankinn ekki öruggt að málið endaði á samkomulagi milli bankans og stjórnvalda.