Bandaríski fjárfestingarbankinn J.P. Morgan, sem liðsinnt hefur Seðlabankanum undanfarið og verið þar til ráðgjafar, hefur nú boðið fram aðstoð sína til að liðka fyrir gjaldeyrisviðskiptum Íslendinga. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur ríkisbönkunum verið tryggð gjaldeyris- og greiðslumiðlunargátt gegnum Seðlabankann og einnig er sá möguleiki nú fyrir hendi að hann notist til þess við reikninga J.P. Morgan. Þessi leið er hugsuð sem hjáleið til þess að hægt sé að tryggja það að greiðslur komist til skila en slíkt hefur reynst erfitt undanfarið sökum mikillar tortryggni erlendis. Aðkomu J.P. Morgan er þannig ætlað að skapa traust á Íslendingum á gjaldeyrismarkaði.

Reynt að skýra línur

Þrátt fyrir að gjaldeyrismarkaðir séu enn langan veg frá því að vera komnir almennilega í gang, ríkir ekki lengur sama neyðarástandið og fyrir helgi. Á fimmtudag og föstudag var algjörlega skorið á millifærslur til og frá Íslandi þannig að fólk gat hvorki flutt peninga af reikningum sínum erlendis né borgað eða fengið greitt fyrir hefðbundin viðskipti við erlenda aðila. Sú stöðvun orsakaðist af því að erlendar bankastofnanir, eins og t.d. skandinavíski risinn Nordea, voru einarðir í þeirri afstöðu sinni að loka algjörlega á gjaldeyrisviðskipti við Ísland. Sú ákvörðun orsakaðist ekki einungis af tortryggni heldur einnig óvissu sem skapaðist í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á íslensku viðskiptabönkunum og stofnun nýrra ríkisbanka.

Við þær aðgerðir varð óljóst hvaða kennitölur og reikningar voru í gildi og því voru erlendir aðilar ekki vissir um við hverja þeir ættu að stunda viðskipti. Útspili Seðlabankans er þannig ætlað að eyða þessari óvissu og er einungis hugsað sem tímabundin aðgerð þar til samskipti viðskiptabankanna við umheiminn verða komin í eðlilegra horf.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .