Bankarnir JPMorgan Chase og Credit Suisse munu þurfa að greiða bandaríska ríkinu 417 milljónir dala, andvirði um 55 milljarða króna, vegna brota tengdum útgáfu á skuldabréfum tengdum fasteignalánum. Um er að ræða dómsátt milli bankanna tveggja og yfirvalda, en bankarnir viðurkenna ekki að hafa brotið af sér.

Bankarnir gáfu báðir út skuldabréfavafninga, sértryggð bréf sem tryggð voru með afborgunum af íbúðalánum.

Í tilviki JPMorgan þá er bankanum gefið að sök að hafa ekki látið fjárfesta vita hversu mörg undirliggjandi fasteignalánanna voru í vanskilum. Í desember 2006 mun bankinn hafa sagt að fjögur lán væru í 30-59 daga vanskilum, á meðan hið rétta var að um 620 lán voru í vanskilum.