JPMorgan Chase væntir þess ekki að fjármálakrísunni í Bandaríkjunum ljúki í bráð. Bankinn mun því haga sér varfærnislega á næstunni.

„Við getum ekki vitað með vissu hvenær þessu samdráttarskeiði lýkur, en það verður þó ekki fyrr en eftir nokkurn tíma“ sagði forstjóri JPMorgan, James Dimon, við Reuters. „Ímyndið ykkur ef við þyrftum að fara til hluthafa okkar og segja að samdrátturinn í hagkerfi Bandaríkjanna sé því miður svo slæmur að við séum farnir á hausinn. Við verðum að geta útilokað að til þess komi.“

JPMorgan sagðist í síðasta mánuði vera að leita að svæðisbundnum bönkum til að taka yfir, en Dimon segir að bankinn hafi ekki áhuga á að kaupa upp hluta Citigroup sem sér um lánveitingar til viðskiptavina í Þýskalandi. „Slík yfirtaka væri tímasóun eins og staðan er í dag“ sagði hann.

JPMorgan tilkynnti í mars um kaup sín á Bear Stearns bankanum. Dimon vonast til þess að yfirtökunni verði lokið í lok júní, sem er nokkru fyrr en búist var við.