Bandarískar hlutabréfavísitölur féllu í dag í fyrsta skipti í þrjá daga, en fjárfestingabankinn JPMorgan sendi út afkomuviðvörun í dag. Reikna má með að kostnaður vegna afskrifta á fasteignatryggðum skuldabréfum tengdum undirmálslánum nemi nú um 500 milljörðum dollar. Bloomberg segir frá þessu í kvöld.

S&P 500 féll um 1,2% sem og Dow Jones. Nasdaq lækkaði um 0,4%.

JPMorgan er næststærsti banki Bandaríkjanna miðað við markaðsvirði, en gengi bankans hefur ekki fallið jafnmikið síðan frá árinu 2002 eins og það gerði í dag.

Deutsche Bank kom fram með neikvæða hagnaðarspá fyrir Goldman Sachs, sem féll í kjölfarið hressilega. Fjármálafyrirtækið Wachovia féll jafnframt um 12% í dag.