Júanið, gjaldmiðill Kínverja, hefur aldrei verið skráð hærra gagnvart Bandaríkjadal en í dag. Alþýðubankinn, seðlabanki Kína, skráði gengi dollarsins í morgun á 6,4856 júan. Bandaríkin hafa lengi gagnrýnt Kína, sem er með fastgengisstefnu, fyrir að halda júaninum vísvitandi of veikum og styðja þannig við útflutningsiðngreinar sínar en Kína er stærsta útflutningsland heims.

Sumir hafa, að sögn BBC, meira að segja gengið svo langt að saka Kína um að hafa óeðlileg áhrif á gengi júansins en bandaríska fjármálaráðuneytið sló á slíkt tal í skýrslu á föstudag og sagði júanið einfaldlega of veikt.