Í júlí síðastliðnum var sætanýting flugfélagsins WOW air 92% og er það söluhæsti mánuður félagsins frá upphafi. WOW air flutti 72.573 farþega í júlí og hefur félagið flutt rúmlega 300 þúsund farþega á fyrstu sjö mánuðum ársins. Til samanburðar flutti félagið á fyrstu sjö mánuðum ársins 2013, 215.000 farþega. Því er um rúmlega 39% hækkun að ræða á milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá WOW air.

Bókunarstaða félagsins er einnig mjög góð inn á veturinn og verulega betri en á sama tíma í fyrra.

Brottfarir WOW air voru í 92% tilvika á réttum tíma í júlí og hefur stundvísi félagsins mælst yfir 90% sem af er árinu. Samkvæmt þessum tölum er WOW air því stundvísasta flugfélag Íslands.

Í sumar flýgur WOW air til 14 áfangastaða; Alicante, Amsterdam, Barcelona, Berlín,  Kaupmannahafnar, Düsseldorf, London, Lyon, Mílanó, París, Stuttgart, Varsjár, Vilníus og Zürich.