Nýverið gengu til liðs við hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri þau Júlía Runólfsdóttir og Pedro Netto. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Júlía er hönnuður og hefur unnið sjálfstætt frá útskrift úr Listaháskólanum árið 2017. Hún stofnaði sitt eigið hönnunarstudio, Studio Holt, bókaútgáfuna Signatúra Books auk þess sem hún kenndi í MA í hönnun í LHÍ. Júlía er fædd og uppalin í Reykjavík og býr í Vesturbænum með unnusta sínum Huga Hlynssyni og tveimur börnum.

Pedro er forritari og er fæddur og uppalinn í Brasilíu og er með B. Tech gráðu í netkerfum. Hann flutti til Íslands árið 2013 og hefur rekið hér sitt eigið veffyrirtæki, Brisa. Hann hefur einnig komið að endurskipulagningu og kennslu hjá Vefskóla Tækniskólans auk þess sem hann stofnaði ásamt tveimur Íslendingum sprotafyrirtækið Conbeo í Víetnam með áherslu á ferðaþjónustulausnir.

Kolibri er hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtæki. Hjá fyrirtækinu vinna ýmiss konar sérfræðingar í stafrænni vef- og vöruþróun. Þar má m.a. finna hönnuði, forritara, og sérfræðinga í vörustjórnun og notendarannsóknum.